*

föstudagur, 5. júní 2020
Innlent 11. janúar 2020 11:05

Verið pólitískur frá barnæsku

Pawel Bartoszek, forseti borgarstjórnar, segir að áhugi sinn á stjórnmálum hafi kviknað strax á barnsaldri.

Sveinn Ólafur Melsted
Allt frá barnsaldri hefur borgarfulltrúinn Pawel Bartoszek haft brennandi áhuga á stjórnmálum.
Gígja Einars

Pawel Bartoszek er borgarfulltrúi Viðreisnar og forseti borgarstjórnar Reykjavíkur, en flokkur hans, Viðreisn, myndar meirihluta í borgarstjórn ásamt Samfylkingunni, Pírötum og Vinstri grænum. Pawel hefur verið viðloðandi stjórnmál í þó nokkurn tíma en áður en hann var kjörinn borgarfulltrúi sat hann m.a. á Alþingi fyrir hönd Viðreisnar í eitt ár og var fulltrúi í stjórnlagaráði, auk þess sem hann sat í stjórn ungra Sjálfstæðismanna um tveggja ára skeið. Pawel segir að áhuginn á stjórnmálum hafi kviknað strax á barnsaldri.

„Ég ólst upp í Póllandi á tímum kommúnismans og þar var umhverfið mjög pólitískt. Hugtök eins og kommúnismi, kapítalismi, ríkisrekstur og einkarekstur voru mjög sterk og mikið notuð í daglegu tali í því óvenjulega hagkerfi sem ríkti á þessum tíma í Póllandi. Þegar ég var átta ára gamall og var nýfluttur til Íslands, var ég byrjaður að velta heiminum fyrir mér og á þeim tíma voru miklar breytingar í gangi hér á Íslandi og má í því samhengi nefna EESsamninginn og heilmikla einkavæðingu. Þá fór ég í fyrsta sinn til útlanda sex ára gamall, til Noregs, og þá sá maður muninn á hlutum eins og vöruúrvali og aðgang að tækni hjá þeim sem alast upp við lýðræði og kapítalisma í samanburði við þá sem alast upp við eins flokks kerfi og miðstýrðan búskap.

Í kringum alþingiskosningarnar árið 1991 bjó ég til mína eigin útgáfu af spilastokk úr myndum af frambjóðendum og þáverandi þingmönnum fjögurra stærstu stjórnmálaflokkanna. Ég efast um að það séu mörg börn sem sýni pólitík slíkan áhuga," segir Pawel kíminn og bætir við: „Á þessum tíma datt mér þó ekki í hug að ég ætti eftir að enda á því að taka þátt í pólitík og gegna pólitískum störfum. Ég kem frá stærra ríki og hafði ekki neinar sérstakar pólitískar fyrirmyndir í kringum mig. Þar af leiðandi þótti manni nokkuð fjarstæðukennt að eiga nokkurn möguleika á að taka þátt í pólitík með beinum hætti. Ef ég hefði verið spurður á menntaskólaárunum út í hvaða starfsferil ég héldi að ég myndi leggja fyrir mig hefði ég sennilega frekar veðjað á að ég myndi verða prófessor í stærðfræði."

Meirihlutasamstarfið gengið vel

Líkt og áður segir myndar Viðreisn meirihluta í borgarstjórn ásamt Samfylkingunni, Pírötum og Vinstri grænum. Þessir samstarfsflokkar Viðreisnar þykja allir halla til vinstri á meðan Viðreisn þykir frekar halla til hægri. Spurður um hvernig Viðreisn og honum sjálfum hafi gengið að koma sínum skoðunum og sjónarmiðum á framfæri í meirihlutasamstarfinu, segir Pawel það heilt yfir hafa gengið vel.

„Í meirihlutasáttmálanum var það m.a. ákveðið að fasteignaskattar á atvinnuhúsnæði myndu lækka á seinni hluta kjörtímabilsins, sem var eitt af okkar kosningaloforðum. Við í Viðreisn leggjum mikla áherslu á atvinnulífið og höfum undanfarið fundað með fólki úr atvinnulífinu til þess að kanna hvernig við getum veitt atvinnulífinu enn betri þjónustu. Við erum að endurskoða þjónustustefnu borgarinnar og vinnum að því að gera hana atvinnumiðaðri. En ég neita því ekki að það eru vissir hlutir sem hægt er að gera betur, t.d. þegar kemur að skipulagsmálum og fleiri ferlum. Það mætti stytta ferla og gera þá skýrari. Ég finn enga mótstöðu innan meirihlutans fyrir þeim áformum og er meirihlutinn sammála um að Reykjavík eigi að vera borg þar sem gott sé að stunda rekstur og flytja til.

Ég myndi segja að ofangreint sé helst okkar krydd inn í meirihluta en svo eru mörg mál sem meirihlutinn er alveg sammála um og þjappar okkur saman, líkt og umhverfis- og skipulagsmál. Ákvarðanir í þessum málaflokkum munu varða landsmenn um alla framtíð og þetta eru hugsjónirnar sem binda meirihlutasamstarfið saman."

Nánar er rætt við Pawel í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér