Velferðarráðuneytið hefur ákveðið að veita rúmar 223 milljónir króna til endurnýjunar og viðhalds tækja og búnaðar á sjúkrahúsum og heilbrigðisstofnunum.

Hæsta upphæðin, 70 milljónir króna, rennur til endurbóta á fæðingar- og kvennadeild Sjúkrahússins á Akureyri. Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins fær 60 milljónir króna fjárveitingu til endurnýjunar á tækjabúnaði og Landspítalinn fær 50 milljónir króna til kaupa á geislunartæki fyrir Blóðbankann og til kaupa á tölvubúnaði fyrir starfsfólk. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Velferðarráðuneytinu.

Auk áðurnefndra fjárveitinga fær Heilbrigðisstofnun Þingeyinga 13,5 milljónir króna til kaupa á hjartaritakerfi, röntgengmyndabúnaði og ristilspeglunartæki og Heilbrigðisstofnun Vesturlands fær 11,5 milljónir króna til ýmissa tækjakaupa. Heilbrigðisstofnun Vestfjarða fær 9,0 milljónir króna til kaupa á hjartarita, Heilbrigðisstofnun Patreksfjarðar 5,5 milljónir króna til kaupa á myndgreiningarbúnaði og Heilbrigðisstofnun Blönduóss fær 2,8 milljónir króna til endurnýjunar tækja. Loks rennur 1,1 milljón króna til Sjúkrahússins á Akureyri vegna kaupa á búnaði vegna sjúkraflugs. Fjármunirnir sem veittir eru til framantalinna verkefna koma af safnliðum sem ekki hafði verið ráðstafað hjá félags- og tryggingamálaráðuneytinu og heilbrigðisráðuneytinu og voru ætlaðir til að standa straum af ýmsum stofnkostnaði hjá velferðarstofnunum.