Kjarasamningar næstu missera munu skipta miklu máli um þróun efnahagsmála á næstu árum. Samningarnir eru ábyrgðarhlutar sem atvinnurekendur, hið opinbera og viðsemjendur þeirra standa frammi fyrir. Þetta segir Halldór Benjamín Þorbergsson framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins í leiðara sínum í fréttabréfi SA fyrir maí mánuð.

Segir hann jafnframt að styrking krónunnar og hagstæð viðskiptakjör hafa leitt til þess að 20% launahækkanir frá ársbyrjun 2015 hafa ekki skilað sér í aukinni verðbólgu. Þetta sé þó ekki viðvarandi ástand þar sem launahækkanir umfram þá verðmætasköpun sem á sér stað á sama tíma í hagkerfinu muni á endanum leiða til verðbólgu. Óábyrgt sé að treysta á styrkingu krónunnar og sögulega hagstæð viðskiptakjör. Þessar forsendur muni ekki halda til lengri tíma.

„Til lengri tíma getur kaupmáttur ekki vaxið meira en framleiðni í efnahagslífinu. Launahækkanir umfram getu atvinnulífsins til að taka á sig aukinn kostnað valda verðbólgu. Hækkun raungengis vegna mikillar verðbólgu er ekki sjálfbær og stuðlar að viðskiptahalla og erlendri skuldasöfnun. Það gerðist síðast á uppgangsárunum 2001-2007 og hefur oft gerst áður. Ójafnvægi myndast sem að lokum leiðréttist með gengisfalli krónunnar. Sú nálgun er fullreynd og finna má mýmörg dæmi um hana í hagsögu Íslands."

Að lokum segir Halldór að tækifærið sé risavaxið og að aðferðafræði fortíðar sé fullreynd. Segir hann Ísland hafa tekið út kaupmáttaraukningu heils áratugar á tveimur árum og verkefni komandi kjarasamninga sé að verja þá aukningu.