Fyrirtæki hafa í auknum mæli verið að taka stöðu með krónunni með framvirkum samningum eftir að heimild til þess var rýmkuð síðasta sumar. Í mörgum tilfellum er tilgangurinn að verja sig gegn frekari veikingu erlendrar samkeppnisstöðu samhliða viðbúnum launahækkunum næstu missera.

Heimildarmenn Viðskiptablaðsins segja nokkuð hafa borið á slíkri stöðutöku, enda spái flestir styrkingu krónunnar næstu ár. Í Þjóðhagsspá Íslandsbanka frá því í lok september er því spáð að krónan styrkist um 3,6% á þessu ári, og 5,1% á því næsta. Spár um ágætt ferðamannasumar og mikill loðnukvóti eru meðal þess sem styrkja ætti krónuna.

Vilja verja samkeppnishæfnina
Viðmælendur á gjaldeyrismarkaði segja nokkurn þrýsting til styrkingar hafa myndast síðustu vikur, en þegar sá bolti fari að rúlla geti hlutirnir gerst hratt. Sem kunnugt er eru nokkuð ríflegar launahækkanir í farvatninu vegna svonefnds hagvaxtarauka, auk þess sem margir kjarasamningar losna á næsta ári.

Sterkari króna ofan í hærri laun í krónum talið myndi þýða enn meiri hækkun launakostnaðar í samanburði við erlenda samkeppnisaðila, og þannig veikja alþjóðlega samkeppnishæfni útflutningsfyrirtækja. Þessu eru fyrirtækin sögð vera að bregðast við með því að taka stöðu með krónunni, sem þá myndi skila þeim hagnaði og vega á móti ef styrkingin gengur eftir.

Aukin aðsókn eftir rýmkun afleiðuheimilda
Reglur um afleiðuviðskipti með gjaldeyri voru rýmkaðar verulega í sumar, og eru nú almennt leyfðar óháð tilgangi. Bönkunum eru þó settar þær skorður að brúttósumma þeirra má að hámarki nema helmingi eiginfjárgrunns.

„Eftir að þetta var gefið frjálst hafa fleiri sýnt þessu áhuga, án þess að það sé einhver sprenging í því. Þetta hefur ekkert aukist neitt óhóflega, menn eru svona kannski aðeins að dýfa tánni í þetta,“ segir einn viðmælandi blaðsins. Raunhagkerfið sé enn á bak við yfirgnæfandi meirihluta viðskiptanna, fremur en spákaupmenn á fjármálamarkaði.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .