Verjendur sakborninga í al-Thani málinu flýttu sér út úr dómsal 401 eftir að dómurinn i al-Thani málinu hafði verið kveðinn upp. Blaðamenn báðu Ólaf Eiríksson, verjanda Sigurðar Einarssonar, um viðbrögð við dómnum. Skjólstæðingur hans fékk fimm ára fangelsisdóm. „Ekki fyrr en ég er búinn að lesa dóminn,“ sagði Ólafur.

Verjendur hinna sakborninganna fóru líka burt án þess að gefa færi á viðtali. Þeir Gestur Jónsson og Ragnar Hall, sem höfðu verið verjendur Sigurðar Einarssonar og Ólafs Ólafssonar þar til aðalmeðferð fór fram,  voru staddir í dómsalnum. Þeir tjáðu sig heldur ekkert um niðurstöðu dómsins fyrst eftir að hann var kveðinn upp. Ragnar Hall sagði síðar í dag í samtali við VB.is að réttarfarssekt sem þeir Gestur hefðu verið dæmdir væri há og hún hefði komið sér á óvart.

Fjórmenningarnir sem ákærðir voru í al-Thani málinu fengu allir þunga dóma, eins og fram kom á VB.is fyrr í dag . Björn Þorvaldsson saksóknari segir í samtali við VB.is að brotin hafi verið alvarleg og verðskuldað alvarlega dóma.