*

sunnudagur, 5. desember 2021
Innlent 3. mars 2020 17:30

Verk og vit sýningunni frestað

Stórsýning aðila í bygginga- og mannvirkjageiranum frestast vegna kórónaveirunnar fram á haustið.

Ritstjórn
Aðsend mynd

Framkvæmdaaðili sýningarinnar Verk og vit hefur að höfðu samráði við Embætti landlæknis og samstarfsaðila sýningarinnar ákveðið að fresta sýningunni sem halda átti í Laugardalshöll 12.-15 mars næstkomandi fram til 15.-18. október 2020.

Eins og Viðskiptablaðið sagði frá á dögunum var uppselt var á sýningarsvæði Verk og vit og sögðu umsjónarmenn mikinn áhuga vera á sýningunni, sem nú frestast um sjö mánuði.

Í ljósi aðstæðna vegna COVID-19 setur framkvæmdaaðili sýningarinnar heilsu og hag sýnenda, þjónustuaðila og gesta sýningarinnar í forgang og er þessi ákvörðun tekin nú áður en uppsetning hefst á sýningunni. Verk og vit hefur skipað sér sess sem uppskeruhátíð bygginga- og mannvirkjageirans en á síðustu Verk og vit sýningu 2018 sóttu um 25.000 manns sýninguna.

Með hliðsjón af eðli sýningarinnar og þeim fjölda fólks sem sækir sýninguna heim, þá væri það erfiðleikum bundið að framfylgja að fullu leiðbeiningum almannavarna. Til að gæta ýtrasta öryggis sýnenda og gesta þá er sýningunni eins og áður er nefnt frestað fram í október 2020.

Stikkorð: og vit sýning Verk byggingageiri kórónaveiran