„Ég var dreginn inn í myrkvað herbergi með 4-5 helstu stjórnendum SAS og látinn fá tilbúinn samning og penna,“ segir Jens Lippestad, formaður verkalýðsfélags norskra flugmanna hjá SAS um samningaviðræður við stjórnendur fyrirtækisins í samtali við fréttavefinn E24 . Lippestad segir að hann aldrei hafa upplifað annað eins og að augljóst hefði verið að honum hefði verið stillt upp við vegg með afarkostum, að samþykkja samninginn eða að SAS færi í þrot.

Eins og fjallað hefur verið um á undanförnum dögum þá hafa stjórnendur SAS fundað stíft að undanförnu með verkalýðsfélögum starfsmanna í Danmörku, Noregi og Svíþjóð til að hægt sé að bjarga félaginu frá gjaldþroti. Ljóst er að starfsmenn þurfa að taka á sig miklar kjaraskerðingar á næstunni auk þess sem fjölda fólks verður sagt upp.

Samningar hafa tekist hjá SAS við átta verkalýðsfélög sem var forsenda þess að hægt væri að endurfjármagna skuldir félagsins. Þá mun félagið selja hluta af starfsemi sinni á borð við flugvallarafgreiðslu.

Lippestad segir í samtali við E24 að hann muni ekki geta fyrirgefið stjórnendum SAS fyrir að setja fyrirtækið í hættu með því að búa til ótta í fjölmiðlum um að fyrirtækið gæti verið á leiðinni í þrot.