*

laugardagur, 18. september 2021
Innlent 31. mars 2019 12:20

„Verkalýðshreyfingin ræður vaxtastiginu“

Gylfi Zöega, nefndarmaður í peningastefnunefnd, segir að verkalýðshreyfingin hafi í hendi sér hvort stýrivextir verði lækkaðir.

Ritstjórn
Gylfi Zöega, prófessor í hagfræði í HÍ og nefndarmaður í peningastefnunefnd Seðlabankans.
Haraldur Guðjónsson

Gylfi Zöega, prófessor í hagfræði í HÍ og nefndarmaður í peningastefnunefnd Seðlabankans segir að verkalýðshreyfingin hafi í hendi sér hvort hægt verði að lækka stýrivexti hér á landi næstu misserin. Þetta kom fram í viðtali við Gylfa í Silfri Egils í dag.

Í fyrsta sinn sé Seðlabankinn í þeirri stöðu að geta lækkað stýrivexti verði niðursveifla í kjölfar falls Wow air, sem sé að vísu alls óvíst hvort verði. Alla jafna hefur Seðlabankinn þurft að hækka stýrivexti þar sem hagkerfið hefur lent í gjaldeyriskreppu samhliða samdrætti í hagkerfinu. Nú séu önnur staða uppi — meðal annars vegna stórs gjaldeyrisvaraforða Seðlabankans — að því gefnu að launahækkanir verði hóflegar í yfirstandandi kjarasamningum.

Gylfi benti á að laun hér á landi séu orðin mjög há í alþjóðlegum samanburði. Það birtist einna skýrast í ferðaþjónustunni sem sé láglaunagrein á alþjóðavísu. Gylfi sagði í gær að ætti að stofna nýtt lággjaldaflugfélag í stað Wow air, þyrfti það að vera á erlendri grundu þar sem laun séu mun lægri en á Íslandi. Ben Baldanza, fyrrverandi stjórnarmaður í Wow air, sagði einnig að ein af ástæðum fyrir falli flugfélagsins hafi verið að það hafi ekki viljað nýta sér vinnuafl erlendis þar sem laun séu lægri.

Bæta stöðuna með öðru en launahækkunum

Gylfi telur að ein af ástæðunum fyrir óróa á íslenskum vinnumarkaði kunni að vera hve hratt láglaunagreinin ferðaþjónustan hafi vaxið á undanförnum árum í hálaunahagkerfi. Erlent vinnuafl hafi verið flutt inn til að sinna láglaunastöfum á meðan líkur séu á að vel menntað ungt fólk hafi sótt í störf erlendis.

Engu síður sé brýnt að bæta kjör hinna lægst launuðu, en það þurfi að gera á annan hátt en að hækka laun allra á íslenskum vinnumarkaði, til að mynda með aðgerðum á húsnæðismarkaði og breytingum á skattkerfinu.

Þá gagnrýndi Gylfi verkalýðsforystuna fyrir marxíska orðræðu um að fyrirtæki væru andstæðingar launafólks og spurði hvort starfsmenn Wow air hafi litið á fyrirtækið sem óvin sinn.