Eftir fjögurra klukkustunda fund formanna aðildafélaga Starfsgreinasambandsins í dag var ákveðið að kjaradeilunni verði vísað til sáttasemjara í lok vikunnar ef engin árangur næst af viðræðum vikunnar.

Starfsgreinasambandið mun á næstu dögum eiga viðræður við Samtök atvinnulífsins en kjarasamningar verða lausir á næstu vikum. Á fundinum í dag komu fram vonbrigði með viðbrögð stjórnvalda við tillögum um aðkomu ríkisins að samningunum. Þetta kemur fram á fréttavef RÚV í kvöld.

Forsvarsmenn Starfsgreinasambandsins og aðrir forystumenn verkalýðshreyfingarinnar hafa lagt áherslu á að laun þeirra lægst launuðu verði hækkuð verulega. Vilhjálmur Egilsson, framvæmdastjór Samtaka atvinnulífsins sagði í fréttum um helgina að tillögur verkalýðshreyfingarinnar muni kosta ríkissjóð um 40 milljarða króna. Þessu mótmæltu bæði forsvarsmenn ASÍ og Starfsgreinarsambandsins og segja útreikninga SA byggja á röngum forsendum.