*

þriðjudagur, 7. júlí 2020
Fólk 30. mars 2017 18:21

Verkefnastjóri erlendra sérhæfra fjárfestinga

Þórður Ágúst Hlynsson mun starfa sem verkefnastjóri erlendra sérhæfðra fjárfestinga hjá GAMMA Capital Management.

Ritstjórn

Þórður Ágúst Hlynsson mun starfa sem verkefnastjóri erlendra sérhæfðra fjárfestinga. Þetta kemur fram í tilkynningu frá GAMMA Capital Management.

Þórður hefur yfir 15 ára alþjóðlega reynslu á sviði verkefnastjórnunar, fyrirtækjaráðgjafar, fjármögnunar og stefnumótunar fyrirtækja.  Þórður var framkvæmdastjóri fyrirtækjaþróunnar Icelandic Group frá árunum 2012 til 2016 þar sem hann stýrði stefnumótun, fyrirtækjaráðgjöf og ýmsum sérverkefnum innan samstæðu félagsins á Íslandi, Bretlandi, Belgíu, Spáni, Asíu og í Bandaríkjunum. 

Frá 2006 til 2012 starfaði Þórður í London sem ráðgjafi í fyrirtækjaráðgjöf, fyrst hjá alþjóðlegu teymi Landsbankans, og síðar sem einn af stofnendum Pensum Partners Limited.  Á árunum 2000 til 2005 starfaði Þórður sem sérfræðingur í fjármögnun atvinnutækja hjá SP-Fjármögnun hf.

Þórður er viðskiptafræðingur frá Háskólanum í Reykjavík og hefur lokið M.Sc. gráðu í fjármálum frá Cass Business School í London.  Þórður hefur lokið prófi FCA í fyrirtækjaráðgjöf í London og mun ljúka prófi í verðbréfaviðskiptum á Íslandi 2017.

GAMMA hóf starfsemi í London árið 2015 og í fyrra fékk félagið sjálfstætt starfsleyfi frá breska fjármálaeftirlitinu í Bretlandi. Leyfið heimilar GAMMA að veita viðskiptavinum sínum víðtæka fjármálaþjónustu, sem felur meðal annars í sér fyrirtækjaráðgjöf og fjárfestingarráðgjöf. Markmið eigenda og stjórnenda GAMMA hefur verið að útvikka og styrkja grundvöll starfseminnar þar í landi. GAMMA vinnur einnig að undirbúningi við opnun nýrrar skrifstofu í New York um þessar mundir. 

Stikkorð: Gamma Fólk Þórður