Talsverð bjartsýni ríkir um áframhald framkvæmda á vegum Envent Holding Philippines Incorporated á Fillippseyjum en yfirborðsrannsóknir eru nú hafnar á Biliran eyju þar sem ætlunin er að reisa 50 MW virkjun.

Yfirborðsrannsóknir eru ætlaðar sem undanfari að byggingu orkuvers þar. Envent er í jafnri eigu REI og Geysis Green.

Að sögn Þórs Gíslasonar, stjórnarformanns Envent, lítur verkefnið mjög vel út á þessari stundu án þess að neinar ákvarðanir hafi verið teknar um framkvæmdirnar sjálfar enda má segja að menn hafi haft öðrum hnöppum að hneppa undanfarið.

„Þetta lítur mjög vel út, út frá auðlindinni,” sagði Þór en hann sagði að í mars næstkomandi yrði líklega tekin ákvörðun um framhaldið, sem yllti að sjálfsögðu á fjármögnun.

Að sögn Þórs er einkum horft til tveggja kosta í stöðunni varðandi fjármögnun, annars vegar að fyrirtækið byggi orkuverið sjálft og fái til þess lán eða þá að það taki inn fjárfesta. Á þessari stundu sé algerlega óvíst hvaða aðferð verður valin.

Undanfari slíkra framkvæmda skiptist í þrennt. Fyrst eru framkvæmdar yfirborðsrannsóknir þar sem svæðið er skoðað og því næst eru framkvæmdar tilraunaboranir.

Þar sem slíkar rannsóknir voru framkvæmdar að hluta 1982, meðal annars með borun þriggja tilraunahola, þá er hugsanlegt að hægt verði að flýta ferlinu en það veltur á áhuga fjárfesta.