„Við getum tapað samkeppnisforskoti sjávarútvegsgreinarinnar sem við þegar höfum, við verðum að horfast í augu við það sem er að gerast,“ segir Sigurjón Arason, yfirverkfræðingur hjá Matís,  um stöðu rannsókna og nýsköpunar innan sjávarútvegsins. Hann segir fjárframlög til fyrirtækis eins og Matís ekki nægjanleg til þess að skapa nýja þekkingu og viðhalda þekkingarstiginu, Matís þurfi í ríkara mæli að reiða sig á sjálfsaflafé og styrki sem stuðlar að óstöðugleika í starfseminni.

Sigurjón segir að margra áratuga starf sé að fara í súginn. Tiltekur hann sérstaklega þegar fyrirtæki í samstarfi við Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins (Rf) hófu að safna gögnum frá veiðum og úr vinnslu og gerður var úr þeim gagnagrunnur sem sýndi breytileika fisksins milli árstíma og veiðisvæða, allt með tilliti til betri nýtingar. Verkefnið var á heimsmælikvarða hvað varðar  rannsóknir í sjávarútvegi. Áður hafði Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins, síðar Matís, fengið aðgang að gögnum Hafrannsóknastofnunar, meðal annars um holdastuðul og annan breytileika í fiskinum. Gögnin frá Fiskistofu komu frá um 25 vinnsluskipum sem þá voru gerð út frá landinu. Skipin voru skylduð til að gera tvær til fjórar nýtingarmælingar á hverjum degi. Það var gert til þess að geta fylgst með vinnslunýtingu skipanna. Skráð var þyngd á haus, hryggjum og flökum. Auk þess fylgdi með í gögnunum upplýsingar um hvar fiskurinn hafði verið veiddur og hvenær og hve hollið var stórt. Sigurjón segir að þetta hafi verið mikilvægur gagnagrunnur og ómetanlegt að komast í hann. Enn bættist svo í gagnaöflunina með samstarfi við fjögur sjávarútvegsfyrirtæki á seinni stigum.

Lifandi gagnagrunnur

Mælingar þessar gerðu það að verkum að með þessu voru fiskimiðin kortlögð varðandi fýsileika þeirra til veiða eftir árstíma og veiðisvæðum, með tilliti til gallatíðni og nýtingarstuðuls.  Þessar mælingar gerðu það að verkum að með þessu fengust lifandi gögn um breytileikann þar sem alltaf var stuðst við sama grunninn. Gögnin streymdu inn, meðal annars um það hvernig fiskur með hringormum dreifist um landið, á hvaða veiðisvæðum helst má eiga von á þeim, stærð og þyngd fisksins, holdastuðul, nýtingu og margt fleira.

„Hefði þessu starfi verið haldið áfram hefðum við núna aðgang að virkum gagnagrunni sem myndi nýtast okkur sem rannsóknartæki til þess að sjá fyrir hvar og hvenær hagkvæmast er að veiða fiskinn. Við söfnuðum og unnum úr gögnum frá fjórum stórum sjávarútvegsfyrirtækjum.. Þau sýndu okkur gallatíðni og hringormafjölda á ákveðnum veiðisvæðum og hvernig afurðaskiptingin var úr hverjum fiski fyrir sig. Þáttur fyrirtækjanna í þessari rannsókn verður seint ofmetinn því þau höfðu öll einn til tvo starfsmenn á launum hjá sér við að vinna með okkur að verkefninu. Enn fremur kom gæðastjóri hjá Samherja að verkefninu og setti fram gæðaviðmið sem unnið var eftir. Í framhaldinu hittust gæðastjórar allra fyrirtækjanna á vinnufundum til að samræma upplýsingastreymið. Verkefnið hófst árið 2000 og lauk 5 árum síðar. Fyrirtækin hafa haldið áfram að safna gögnum og þau gögn eru undirstaðan fyrir frekari verðmætasköpun, framförum og nýsköpun í greininni og einnig til að nota sem grunn fyrir lifandi spálíkön,“ sagði Sigurjón.

Hætta á krossmengun með aukinni sjálfvirkni

Sigurjón bendir á að í raun sé þessi rannsóknagrunnur undirstaðan fyrir áframhaldandi þróun innan sjávarútvegsins. Fjórða iðnbyltingin og öll gervigreind byggi á traustum gögnum. Þessi gagnasöfnun og gagnaúrvinnsla er grunnurinn að þeim framförum sem hafa orðið til dæmis í tækniþróun innan landvinnslunnar. Framfarir kalli hins vegar á enn meiri framfarir. Með aukinni sjálfvirkni myndast hætta á krossmengun við vinnslu á sjávarafurðum og nefnir Sigurjón þar sérstaklega listeríusmit. Sofni menn á verðinum gæti sú staða komið upp að heilu farmarnir af menguðu íslensku sjávarfangi verði send víða um heiminn með ófyrirsjáanlegum afleiðingum fyrir greinina.

„Gagnagrunnurinn er að einhverju leiti til svo það er hægt að halda áfram að þróa og bæta grunnin í stað þess að láta staðar numið og glata þessari verðmætu þekkingu. Ég velti því líka fyrir mér hvort fyrirtækin sem við höfum unnið með séu meðvituð um mikilvægi þessa gagnagrunns,“ segir Sigurjón.

Framlög minnkað mikið

Samstarf sjávarútvegsfyrirtækja og Matís hefur alla tíð verið til fyrirmyndar en það sem hefur gerst er að Matís er háðara sértekjum af verkefnum en nokkru sinni fyrr. Áður var forverinn, Rannsónastofnun fiskiðnaðarins, með 70-80% af veltunni bundið í fjárlögum en í dag er þetta hlutfall einungis 20-25%. Með sameiningu Rf, Matra (sem var hluti af Iðntæknistofnun og Rannsóknastofnun landbúnaðarins), Rannsóknastofu Umhverfisstofnunar og erfðatæknifyrirtækisins Prokaria undir hatt Matís ohf. eru ekki einvörðungu stundaðar  rannsóknir innan sjávarútvegsins heldur á mun víðara sviði.

Gríðarlegur árangur

Þegar litið er yfir árangurinn af starfi Rf og síðar Matís ætti flestum að vera ljóst að fjármunum er vel varið sem renna til rannsókna og nýsköpunar í sjávarútvegi. Tekist hefur með réttri meðhöndlun að auka virði makrílútflutnings um röska 20 milljarða á ári, svipaða sögu má segja um virðisaukningu í  saltfiskútflutningi. Nýting í saltfiskvinnslu jókst úr 40% í u.þ.b. 55% og nýting í framleiðslu á þorskflökum úr 40% í 50%, m.a. með betri þekkingu á flökun og snyrtingu, en ekki síst hvar hagkvæmast er að veiða fiskinn með tilliti til nýtingar. Hér mætti einnig nefna þróun á fiskikerum, hausaþurrkurum og frauðplastkössum, sem eiga sinn þátt í verðmætasköpuninni. Gríðarlegar framfarir hafa orðið hvað varðar nýtingu á aukahráefnum sem falla til við vinnslu, þau skapa að auki 10-20 milljarða á ári í útflutningsverðmæti. Þessi þekking hefur orðið til í samstarfi Matís og sjávarútvegsfyrirtækjanna á 40 ára tímabili.