Evrópusambandið hefur veitt 7,7 milljónir evra, sem svarar til 1,2 milljarða króna, til rannsóknarverkefnisins Garps. að verkefninu standa Landsnet og Háskólinn í Reykjavík ásamt 17 evrópskum háskólum, rannsóknarstofnunum og raforkuflutningsfyrirtækjum. Markmið verkefnisins er að bylta gildandi aðferðafræði við áreiðanleikaútreikninga raforkuflutningskerfa og þróa ný og hagkvæmari viðmið svo evrópsk flutningsfyrirtæki verði betur í stakk búin til að takast á við þær miklu breytingar sem hafa átt sér stað í uppbyggingu og rekstri raforkukerfa í álfunni og vinna að frekari þróun þeirra.

Fram kemur í tilkynningu frá Háskólanum í Reykjavík að Garpur er stærsta rannsóknarverkefni sinnar tegundar í heiminum. Áætlaður heildarkostnaður þess er um 1,7 milljarður króna.

Þá segir í tilkynningunni að verkefnið hafi verið í undirbúningi í á annað ár. Það megi rekja til hugmyndar frá Landsneti sem fyrirtækið þróaði áfram í nánu samstarfi við norska flutningsfyrirtækið Statnett. Hlutur Íslands er umtalsverður því fulltrúar Háskólans í Reykjavík og Landsnets leiða tvo þeirra, eða um 20% af verkefninu.

Friðrik Már Baldursson, prófessor í hagfræði við viðskiptadeild Háskólans í Reykjavík, leiðir rannsóknir og þróun á efnahagslegum mælikvörðum svo hægt verði að bera saman mismunandi áreiðanleikaviðmið fyrir raforkukerfi. Íris Baldursdóttir, deildarstjóri Kerfisstjórnar og markaðar hjá Landsneti, leiðir þann hluta verkefnisins sem miðar að því að þróa og aðlaga nýja aðferðafræði við skammtíma áætlanagerð og rauntímastýringu raforkukerfa.

Á myndinni má sjá íslensku verkstjórana í rannsóknarverkefninu GARPUR. Friðrik Már Baldursson, prófessor í hagfræði við viðskiptadeild Háskólans í Reykjavík, og Íris Baldursdóttir, deildarstjóri Kerfisstjórnar og markaðar hjá Landsneti, í stjórnstöð Landsnets ásamt Ara Kristni Jónssyni, rektor Háskólans í Reykjavík, Guðmundi Inga Ásmundssyni, aðstoðarforstjóra Landsnets, Ragnari Guðmannssyni, yfirmanni stjórnstöðvar Landsnets og Þórönnu Jónsdóttur, forseta viðskiptadeildar Háskólans í Reykjavík.