„Verkefni okkar er ennþá óleyst og það er mikilvægt fyrir fyrirtækið og alla starfsmenn þess, flugmenn og aðra, að því ljúki með kjarasamningi sem báðir aðilar geta sætt sig við,“ segir Birkir Hólm Guðnason, framkvæmdastjóri Icelandair, í tilkynningu vegna laga á verkfall flugmanna. Í tilkynningu er harmað að ekki hafi náðst samningar. Birkir Hólm segir að áfram verði haldið í samningaumleitunum með það að markmiði að ekki komi til kasta gerðardóms við lausn málsins.

Í tilkynningu Icelandair Group til Kauphallar í dag kemur fram að ekki er ljóst hver kostnaður samstæðunnar er vegna verkfallsaðgerðanna. Alls hafa 67 flug verið felld niður vegna þeirra undanfarna 6 daga, frá 9. maí. Um 9 þúsund farþegar voru bókaðir á flugin.

Gert er ráð fyrir að flug verði samkvæmt áætlun á morgun.