Seðlabanki Íslands (SÍ) hefur skýr fyrirmæli í lögum um að meginmarkmið peningastefnunnar sé að tryggja verðstöðugleika. Þetta kemur fram í grein sem Þorvarður Tjörvi Ólafsson, hagfræðingur í Seðlabanka Íslands, hefur skrifað og birt er á vefsíðu banbanks.

„Lögin veita bankanum fullt sjálfstæði til að ná þessu markmiði," skrifar Þorvarður Tjörvi. „Um leið er gerð krafa um að gagnsæi og vönduð vinnubrögð einkenni ákvörðunartöku og bankinn standi opinberlega skil á gjörðum sínum. Umgjörð af þessu tagi er til þess fallin að skipa langtímasjónarmiðum um mikilvægi verðstöðugleika í öndvegi og stuðla að kerfisbundinni, gagnsærri og trúverðugri framkvæmd peningastefnunnar.

Í kjölfar fjármálakreppunnar hafa verið stigin mikilvæg skref í átt til aukins sjálfstæðis og gagnsæis við framkvæmd peningastefnunnar sem hafa skilað tilætluðum árangri.

Verkefnið nú er að festa verðstöðugleikann í sessi. Þar þurfa allir að leggjast á árarnar og standa vörð um lögbundið sjálfstæði peningastefnunefndar SÍ til að taka ákvarðanir um aðgerðir í peningamálum og meta að hve miklu leyti önnur markmið samrýmast verðbólgumarkmiðinu. Þannig tryggjum við að langtímasjónarmið um verðstöðugleika séu leiðarljós framkvæmdar peningastefnunnar. Vonir um óvissan skammtímaábata vegna aukinna arðgreiðslna til ríkissjóðs mega ekki verða til þess að vikið sé frá viðurkenndum og árangursríkum starfsaðferðum að óathuguðu máli."

Hægt er að lesa greinina hér.