Enginn fundur hefur verið boðaður í kjaradeilu lækna og líklegt að verkfall hefjist 27. október að því er fram kemur í Fréttablaðinu í dag.

Rafræn atkvæðagreiðsla um boðaðar verkfallsaðgerðir stendur nú yfir hjá Læknafélagi Íslands og Skurðlæknafélagi Íslands og verður niðurstaðan ljós eftir helgi.

Í Fréttablaðinu er haft eftir Sigurveigu Pétursdóttur, formanni samninganefndar lækna, að hún eigi ekki von á öðru en að læknar samþykki að boða til verkfalls. „Ég er bjartsýn á að þeir samþykki þessa beiðni þó að það sé okkur ekki ljúft að fara í verkfall," segir Sigurveig.

Hún segir það torvelda samningaviðræðum að samninganefnd ríkisins hafi takmarkað umboð. Þá gefur hún lítið fyrir þá stefnu stjórnvalda að miða eigi við 2,8% hækkun hjá opinberum starfsmönnum.

„2,8-3 prósent duga ekki því við vitum að það er flótti lækna frá landinu og við læknar vitum um hvað málið snýst. Við verðum að sporna við því og það verður ekki gert öðruvísi en að hækka laun," segir Sigurveig í Fréttablaðinu.