Félagsdómur hefur komist að þeirri niðurstöðu að boðað verkfall Eflingar á sjö hótelum Íslandshótela, sem hefjast á morgun, standist lög.

Samtök atvinnulífsins (SA) stefndu Eflingu í lok síðasta mánaðar vegna fyrirhuguðu vinnustöðvuninni. SA töldu óheimilt að boða og hrinda í framkvæmd vinnustöðvun á meðan miðlunartillaga er í kynningu og atkvæðagreiðslu. Þá hafi Efling einnig hindrað að atkvæðagreiðsla gæti farið fram um miðlunartillöguna með að afhenda ekki félagatal sitt.

„Niðurstaða atkvæðagreiðslu um miðlunartillöguna hafi því ekki getað legið fyrir innan þeirra tímamarka sem ákveðin höfðu verið af ríkissáttasemjara,“ segir í tilkynningu sem SA sendu frá sér í lok síðasta mánaðar.

Héraðsdómur Reykjavíkur kvað fyrr í dag upp úrskurð um að Eflingu beri að afhenda ríkissáttasemjara félagatal sitt. Lögmaður Eflingar hefur kært úrskurðinn.