Stjórn Bílgreinasambandsins hefur miklar áhyggjur af afleiðingum verkfalls flugmanna Icelandair.  Verkfallið getur haft mikil áhrif á bílgreinina, enda hafa bílaleigur lagt inn pantanir á hátt í fjögur þúsund bílum fyrir sumarið, sem afhenda átti að mestu leyti í maí og júní.  Að sama skapi mun þetta hafa áhrif á hópferðafyrirtæki.

„Nú þegar eru bílaleigur byrjaðar að endurskipuleggja afhendingar á bílaleigubílum sem komnir eru til landsins eða eru á leiðinni. Og í einstaka tilvikum hafa komið afpantanir frá þeim til bílaumboðanna. Verkfalli má líkja við náttúruhamfarir eins og eldgos, þar sem mikil óvissa er um framgang og hversu lengi hamfarirnar vara.  Þegar svo er þá fara ferðamenn, sem ættu þessa stundina að vera bóka ferðir sínar til landsins, að endurmeta ferðaáætlanir sínar. Við teljum því að þessar aðgerðir hafi mjög skaðleg áhrif og treystum því að viðsemjendur nái saman sem fyrst,“ segir Özur Lárusson framkvæmdastjóri Bílgreinasambandsins.

Bílaleigur hafa undafarin ár verið mjög drjúgur hluti bílasölu í landinu. Allt frá því að vera um 60% af bílasölu árið 2010 og í ár er því spáð að bílaleiga verði um 40% af bílasölu ársins.  Tekjur bílgreinarinnar vegna sölu og þjónustu á bílaleigum er því umtalsverður hluti af rekstri bílgreinarinnar og því ljóst að bílgreinin mun verða fyrir miklum skakkaföllum verði ekki leyst úr þessari kjaradeilu hið fyrsta.