Áætlað tekjutap þjóðarbúsins vegna verkfallsaðgerða flugmanna Icelandair í maí og júní er um 900 milljónir króna á degi hverjum. Ferðaþjónusta og afleiddar atvinnugreinar eiga því mikið undir. Inni í tölunni er ekki tekið tillit til tekjutaps sjávarútvegsins en stærstur hluti ferskfisks er fluttur með flugi á vegum Icelandair, að því er fram kemur í athugasemdum við lagasetningu gegn verkfallsaðgerðum flugmanna Icelandair . Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra mælti fyrir frumvarpinu í gærkvöldi. Verkfallsaðgerðir flugmanna Icelandair hafa staðið yfir síðan á föstudag í síðustu viku.

Fram kemur í athugasemdunum að samkvæmt upplýsingum frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu aflaði ferðaþjónustan á síðasta ári um 274 milljörðum króna í gjaldeyristekjur. Það er nokkru meira en sem nam gjaldeyristekjum af sjávarútvegi.

Niðurstaða verður samkvæmt frumvarpinu að liggja fyrir 15. júlí næstkomandi. Náist það ekki mun gerðardómur grípa inn í og ákveða kaup og kjör flugmanna fyrir 15. september.

Í athugasemdunum segir orðrétt:

„Ferðamönnum hefur haldið áfram að fjölga það sem af er þessu ári og er það mat Ferðamálastofu að fjölgunin sé um 35% miðað við sama tímabil 2013. Áætlað tekjutap á hverjum degi verkfallsaðgerða (gjaldeyristekjur ferðaþjónustunnar + beinar skatttekjur hennar), miðað við maí og júní (tölur frá 2013 uppreiknaðar miðað við áætlaðan vöxt 2014 og markaðshlutdeild Icelandair), er um 900 millj. kr. Ferðaþjónustan og afleiddar atvinnugreinar eiga því hér mikið undir. Á þessu tímabili er hlutdeild Icelandair í flugi til og frá landinu rúmlega 70%.“