Samningafundi í kjaraviðræðum Icelandair og flugvirkja lauk í gærkvöldi án árangurs. Flugvirkjar lögðu því niður störf klukkan sex í morgun og munu ekki hefja störf fyrr en að sólarhring liðnum.

Nánast allt millilandaflug Icelandair liggur niður vegna þessa og má ætla að aðgerðirnar bitni á um 12.000 flugfarþegum.

Einar K. Guðfinnsson, forseti Alþingis, segir í samtali við Morgunblaðið í dag að engin ósk hafi borist um að kalla saman þing til að setja lög á kjaradeiluna. Hann segir þó jafnframt að það tæki ekki langan tíma að kalla þingið saman ef til kæmi.

Boðað hefur verið til nýs fundar klukkan tvö í dag. Ef ekki nást samningar fyrir fimmtudag þá hefst ótímabundið verkfall flugvirkja.