Fyrir rúmri viku síðan úrskurðaði Félagsdómur boðun verkfalls aðildarfélaga Rafiðnaðarsambands Íslands (RSÍ), sem starfa hjá RÚV, ólögmæta. Þar með varð ekkert úr verkfalli tæknimanna 26. mars síðastliðinn.

Í gær hófst ný atkvæðagreiðsla um boðun verkfalls og stendur hún fram á þriðjudag. Ef verkfallsaðgerðir verða samþykktar, sem yfirgnæfandi líkur eru á þar sem síðasta verkfallsboðun var samþykkt með 96% atkvæða, fara tæknimenn í verkfall föstudaginn 16. apríl. Sú vinnustöðvun mun standa til mánudagsins 20. apríl. Hafi samningar ekki tekist 24 apríl fara tæknimenn þá í ótímabundið verkfall. Verkfall tæknimanna hefur áhrif á útsendingar sjónvarps og útvarps.

Fulltrúar RSÍ og Samtaka atvinnulífsins funduðu í húsakynnum ríkissáttasemjara í fyrradag en upp úr þeim viðræðum slitnaði. Kjaradeilan er því í hnút.