Líklegt er að allsherjarverkfall hjúkrunarfræðinga á stofnunum ríkisins muni hefjast á miðnætti en samningafundi lauk í gær án árangurs. „Það hefði mátt ganga betur á fundinum, hann var aðeins 45 mínútur og við þokuðumst ekki nær samkomulagsátt,“ segir Ólafur G. Skúlason, formaður Félags hjúkrunarfræðinga, í samtali við Morgunblaðið .

Þar kemur fram að hjá ríkinu séu 1.600 stöðugildi hjúkrunarfræðinga og af þeim séu um 500 á undanþágulista. Helgin var nýtt til að rýma rúm og sjúklingar sem ekki voru bráðveikir sendir heim.

„Það hefur verið mjög mikið álag í allan vetur og viðvarandi um og yfir hundrað prósent rúmanýting. Ég fékk þær fréttir að í lok helgarinnar væri staðan með betra móti þannig að eitthvað hefur nú gengið að útskrifa,“ segir Sigríður Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar á Landspítalanum, í samtali við Morgunblaðið. Hún segir að tekið sé á móti sjúklingum sem þurfi að leggjast inn og ekki sé lokað á fólk.