Starfsmenn hins opinbera í Grikklandi lögðu niður störf í dag og mótmæla niðurskurði fyrir framan þinghúsið í Aþenu með eins dags verkfalli. Í frétt Financial Times segir að þúsundir manna hafi mótmælt. Verkfallið eru samhliða fundi fulltrúa Evrópusambandsins, Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og Evrópska seðlabankans sem hittast í Aþenu og ræða um breytingar á skilmálum lána AGS og ESB til Grikkja.

Allt flug á flugvellinum í Aþenu lá niðri í fjórar klukkustundir í dag vegna verkfalls flugumferðastjóra. Sama gilti um opinberar samgöngur í borginni, skólastarf og flestar opinberar byggingar.

Búist er við að lánaskilmálar neyðarláns sem Grikkjum var veitt verði hertir og komi til enn frekari niðurskurðar. Fjárhagsstaða ríkisins er verri en talið var í fyrstu og að mati margra er þörf á endurskipulagningu skulda gríska ríkisins.