Hafnir hafa lokast í Finnlandi og flug truflast vegna víðtækra verkfallsaðgerða í landinu. Í frétt BBC segir að lestir og strætisvagnar séu hætt að ganga, en ferjur, þar á meðal til Svíþjóðar og Eistlands, sigli ennþá.

Með verkfallsaðgerðunum er verið að mótmæla niðurskurði hjá ríkissjóði, en draga á úr velferðargreiðslum og yfirvinnu hjá opinberum starfsmönnum. Kjaraviðræður milli verkalýðsfélaga og fulltrúa ríkissjóðs runnu út í sandinn.

Juha Sipila, forsætisráðherra Finnlands, kynnti í síðutu viku aðgerðir sem eiga að hleypa nýju lífi í finnskt efnahagslíf en þriggja ára lægð. Fela þær m.a. í sér að fækka frídögum, lækka húsnæðisstyrki til ellilífeyrisþega og lækkun yfirvinnugreiðslna.

„Finnska ríkið hefur verið að safna skuldum upp á um eina milljón evra á klukkustund undanfarin sjö ár, nótt og dag, alla daga vikunnar. Við getum ekki haldið áfram á þessari braut,“ sagði hann.

Gert er ráð fyrir fjöldamótmælum í Helsinki í dag.