Samkvæmt frétt Fréttablaðsins mun verkfall sjómanna hafa gríðarleg áhrif á störf fjölmenns hóps auk þess að kosta þjóðarbúið háar fjárhæðir. Samkvæmt Jóni Steinari Elíassyni,  formanns Samtaka fiskframleiðenda og útflytjenda, er nú svo komið að allur fiskur er að klárast hjá fiskvinnslum. Verkfall sjómanna hefur áhrif á störf þúsunda sem starfa í fiskvinnslum í landi.

Í viðtali við blaðið segir hann að allt sé að verða tómt og því ekki annað hægt að gera en að senda fólk heim og það hafi auðvitað slæm áhrif. Skaðinn sé ekki aðeins fyrir fyrirtækið heldur einnig gagnvart fólkinu sem fái minni laun og gagnvart mörkuðum.

Að sögn Jóns er  tíminn milli jóla og nýárs og fyrstu tvær vikurnar í janúar góður sölutími fyrir ferskan fisk og því mikið í húfi.