Verkfall flugmanna þýska flugfélagsins Lufthansa heldur áfram og er dagurinn í dag sá þriðji í röð þar sem þeir leggja niður störf. Reuters greinir frá því að um 700 áætlunarflug muni leggjast af.

Deilan snýst um eftirlaunakjör flugmannanna auk þess sem þeir hafa andmælt áformum félagsins um að auka við lággjaldastarfsemi sína þar sem það muni hafa í för með sér lægri launaútgreiðslur til þeirra.

Eftirlaunadeilan snýst hins vegar um fyrirætlanir flugfélagsins um að afnema eftirlaunaáætlun sem gerir flugmönnunum kleift að fara á eftirlaun 55 ára gamlir og fá 60% launa sinna greidd út þar til þeir ná 65 ára aldri.

Með verkfalli dagsins hafa flugmenn félagsins lagt niður störf fjórtán sinnum frá því í byrjun aprílmánaðar á síðasta ári. Frá þeim tíma hafa verkföllin kostað Lufthansa yfir 200 milljónir evra eða um 30 milljarða íslenskra króna.