Á fundi tónlistarkennara í Kaldalóni í Hörpu í gærkvöldi varð það ljóst að verkfall tónlistarkennara hæfist um miðnætti í nótt. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Kennarasambandi Íslands. Samningafundi við tónlistarskólakennara lauk á sjöunda tímanum í gær en að sögn Sigrúnar Grendal, formanns Félags tónlistarskólakennara, eru vonir bundnar við að verkfallið verði stutt.

„Við erum hreykin af okkar tónlistarskólakerfi og okkur langar að leggja okkar af mörkum til að halda áfram vinnu og bæta menntun með okkar innleggi,“ sagði Sigrún á fundinum í gær.

Fundurinn í Hörpu var fjölmennur en á honum tóku meðal annarra til máls Dagur B. Eggertsson borgarstjóri og Dr. Ágúst Einarsson sem ræddi um virði tónlistar. Þá sagði Ágúst í erindi sínu að verðmæti tónlistar væri vanmetið í samfélaginu. „Virði tónlistar mælist þó ekki aðeins í peningum heldur í mörgu öðru eins og menningarlegu virði, ánægju og vellíðan. Tónlist bætir samskipti fólks,“ sagði Ágúst á fundinum.