Búist er við að læknar hefji verkfallsaðgerðir á miðnætti annað kvöld þar sem engir samningafundir eru boðaðir í kjaradeilu lækna og ríkisins. Á miðnætti annað kvöld á að hefjast tveggja sólarhringa verkfallsaðgerðir lækna. Þetta kemur frá á vef Ríkisútvarpsins.

Þorbjörn Jónsson, formaður Læknafélags Íslands, segir að fátt komi í veg fyrir verkfall þar sem ekki sé fyrirhugaður samningafundur. „Það er þá mat sáttasemjara og deiluaðila að það sé ekki að draga neitt saman í deilunni, þannig að það sé óþarfi raunverulega að funda,“ segir Þorbjörn aðspurður um hvers vegna engir fundir séu um helgina.