Öryggisverðir á Heathrow flugvellinum í London hafa tilkynnt verkfall sem mun byrja nú í sumar. Rúmlega 2.000 starfsmenn í verkalýðsfélaginu Unite munu ganga frá störfum í heilan mánuð.

Samkvæmt verkalýðsfélaginu hafa starfsmenn hafnað tilboði um 10,1% launahækkun sem átti að koma til móts við verðbólgu en þeir benda á að verðbólgan sé nú komin í 11,4%.

Aðgerðirnar munu koma til með að hafa stórfelld áhrif á starfsemi Heathrow en verkfallið mun eiga sér stað frá 24. júní til 27. ágúst, á hápunkti sumarferðalaga. Áhrifin verða mest á flugstöðvum 3 og 5 og er búist með löngum röðum í öryggisleit.

Fyrri verkföll á Heathrow höfðu ekki haft stórfelld áhrif en stjórnendur flugvallarins náðu á síðustu stundu af finna staðgengla fyrir þá starfsmenn sem lögðu niður störf. Heathrow er einn annasamasti flugvöllur í heimi en rúmlega 67 milljónir farþega fara í gegnum hann á hverju ári.

Talsmenn Heathrow segja að þeir muni gera allt sem í sínu valdi standi til að lágmarka röskun sem verkfallið kemur til með að hafa. Þeir segja að Unite hafi áður reynt að raska starfsemi flugvallarins með því að efna til verkfalls á annasömum dögum en án árangurs.

„Staðreyndin er sú að meirihluti starfsmanna styður ekki þessi verkföll. Það er tveggja ára verðbólgutengd launahækkun sem er tilbúin fyrir starfsfólkið, en Unite hefur ekki leyft því starfsfólki að tjá sig,“ segir í tilkynningu frá Heathrow.