Starfsmenn í vöru- og dreifingarmiðstöð Iceland-verslunarkeðjunnar í Enfield í norðurhluta London munu að óbreyttu leggja niður vinnu á föstudag til að leggja áherslu á kröfu um hærri laun. Frá þessu er greint í breskum fjölmiðlum í dag, en Baugur er eigandi Iceland.

Vöru- og dreifingarmiðstöðin er ekki rekin af Iceland-kejðunni heldur af DHL Exel. Starfsmenn hafa þegar hafnað tilboði um 2,4% hækkun launa og hafa hótað að leggja niður vinnu á föstudag. Þeir munu einnig hóta að halda vinnustöðvun áfram af og til, þangað til samningar nást um laun.

Verkalýðsfélag starfsmanna segir að þótt 365 starfsmenn vöru- og dreifingarmiðstöðvarinnar séu á launaskrá hjá DHL Exel, beri Iceland ábyrgð á deilunum.

Vinnudeilan getur haft veruleg áhrif á jólasölu í verslunum Iceland í London og suður Englandi, að því er fram kemur á vef BBC og Daily Mirror. Vöru- og dreifingarmiðstöðin annast dreifingu til um 180 verslana hjá Iceland.