Stjórn og samninganefnd Flugvirkjafélag Íslands hefur tekið ákvörðun um að aflýsa boðaðri verkstöðvun félagsins gegn Icelandair sem hefjast átti í fyrramálið klukkan 06:00.

Ástæðan er sú að Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra lagði fram lagafrumvarp í dag sem bannar verkfallið. Stefnt var að því að frumvarpið yrði samþykkt í kvöld eða í nótt.

Mikil röskun varð á flugi Icelandair á mánudag þegar flugvirkjar fóru í sólarhringsverkfall.

---------------
Viðbót klukkan 23:38
Hanna Birna kvaddi sér hljóðs þegar þingfundur hófst að nýju klukkan hálftólf í kvöld og las upp bréf þess efnis að ákveðið hefði verið að fresta verkfallinu. Hún lagði því til að atkvæðagreiðsla um lagafrumvarp um bann við verkfalli færi ekki fram. Forseti Alþingis féllst á tillögu Hönnu Birnu og var í framhaldi gert hlé á starfi þingsins. Þingmenn eru því aftur komnir í sumarfrí.