Eftir tveggja sólarhringa verkfallsaðgerðir flugvirkja hjá Icelandair hefur verkfallinu verið frestað um fjórar vikur meðan kosið verður um nýjan samning sem skrifað var undir í nótt. Náðust samningarnir upp úr 4 í nótt, eftir að samningafundur hafði staðið yfir í um hálfan sólarhring, en formaður samninganefndar flugvirkja telur samninginn góðan að því er RÚV greinir frá.

Gunnar Rúnar Jónsson formaður samninganefndar flugvirkja segir að báðir aðilar hafi þurft að gefa eftir. Í morgunútvarpi Rásar 2 vísaði hann þar fyrst og fremst í tímalengd samningsins af hálfu flugvirkja, en þeir vildu upphaflega einungis semja til eins árs. Að kröfu Icelandair var þó samið til loka árs 2019.

„Báðir aðila þurftu að gefa eitthvað eftir af sínum kröfum og á endanum mættust menn á einhverjum miðjupunkti,“ segir Gunnar Rúnar en hann segir ekki ljóst hvenær samningurinn verði borinn undir atkvæðagreiðslu, mögulega ekki fyrr en eftir áramót.

„Við skrifum upp á samninginn og trúum því að þetta sé góður samningur og þess virði að leggja fyrir félagsmenn okkar. Þeir hafa lokaorðið síðan.“