Um sexleytið var samið við sex stéttarfélög iðnaðarmanna í húsakynnum ríkissáttasemjara og hefur verkfalli þeirra því verið afstýrt. Verkfallið átti að hefjast á miðnætti og hefðu um það bil 10.500 manns lagt niður störf.

Félögin sem um ræðir eru Félag hársnyrtisveina, Félag vélstjóra og málmtæknimanna (VM), Grafía/FBM, Matvæla- og veitingafélag Íslands, Rafiðnaðarsamband Íslands og Samiðn. Blikur voru á lofti um að samningar myndu nást, en í gær lýstu menn frá báðum hliðum yfir mikilli bjartsýni. Fundarhöld héldu svo áfram í dag og var samið fyrir kvöldmat.

„Þetta er bara niðurstaða sem menn eru komnir að. Það verður ekki komist lengra í þessari atrennu, og þá er ekki annað að gera en að skrifa undir og senda til félagsmanna,“ sagði Guðmundur Ragnarsson, formaður VM, í kvöldfréttum Stöðvar 2.

„Það er nú bara þannig í samningum að menn verða á einhverjum tímapunkti að átta sig á því að það verður ekki lengra komist. Við komumst ekki lengra í bili og það verður bara að sjá hvort þeir sem greiða atkvæði um samninginn eru sáttir.“