Ríkissáttasemjari hefur lagt fram málamiðlunartillögu í kjaradeilu ljósmæðra sem samninganefnd stéttarinnar hefur samþykkt. Hækkanirnar sem um var samið eru í grundvallaratriðum þær sömu og í samningi frá 29. maí síðastliðnum og gildistími er 31. mars 2019.

Tillagan felur í sér að sérstökum gerðardómi verði falið að kveða upp úr um það hvort og þá að hvaða leyti álag, menntun og inntak starfsins eigi að hafa frekari áhrif á launasetningu stéttarinnar. Ríkissáttasemjari mun skipa þrjá menn í gerðardóminn, sem fær fullt sjálfstæði í störfum sínum, og fær til 1. september næstkomandi til að ljúka störfum sínum.

Þegar samningsaðilar höfðu fundað fimm sinnum án árangurs var málinu vísað til ríkissáttasemjara, fundurinn í dag var sá fimmtándi þar, en viðskiptablaðið sagði frá stöðu mála í gær . Tillagan verður kynnt félagsmönnum ljósmæðrafélagsins og fjármála- og efnahagsráðherra á næstu dögum og greidd verða um hana atkvæði fyrir hádegi næstkomandi miðvikudag. Þá samþykkir Ljósmæðrafélagið að aflýsa yfirstandandi yfirvinnubanni.

„Það eru ákveðin rök fyr­ir því sem að sátta­semj­ari hef­ur að ein­hver hluti af ágrein­ingn­um fari fyr­ir gerðardóm, og báðir aðilar fall­ast á það að þessu sinni og þá er það part­ur af heild­ar­lausn­inni. Ég held að í þessu til­viki hafi það verið mjög skyn­sam­legt,“ seg­ir Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra í samtali við Morgunblaðið .

Samkvæmt frétt Morgunblaðsins verður 60 millj­ón­um króna einnig veitt til heil­brigðis­stofn­ana, fyrir utan kjarasamninginn, og er það sama upp­hæð og ljós­mæðrum bauðst í samn­ingn­um sem var felld­ur í júní.