Útlit er fyrir að ekkert verði af fyrirhuguðu verkfalli flugmanna danska lággjaldaflugfélagsins Sterling, sem er í eigu Norhern Travel Holding, en flugmenn félagsins og forráðamenn þess hafa fundað síðan í gærdag, segir í frétt á vefsíðu danska viðskiptablaðsins Børsen.

Um 15 þúsund Danir sem áttu pantað flug með Sterling á næstu dögum geta því andað léttar en útlit var fyrir að þeir gætu ekki haldið í sumarfrí með félaginu.

?Við erum við það að lesa samningana í gegn og ganga frá þeim. Gengið hefur verið frá stærstu ágreiningsmálum en það gæti tekið nokkra tíma í viðbót að ganga frá smáatriðum,? segir Stefan Vilner, upplýsingafulltrúi Sterling, í samtali við Børsen.

?Það sem skiptir höfuðmáli í þessum samningum eru laun og vinnutími flugmanna,? segir Vilner.