Þann 19. febrúar síðastliðinn lauk verkfalli sjómanna sem staðið hafði í rúma tvo mánuði. Vilhjálmur Vilhjámsson, forstjóri HB Granda segir að verkfallið hafi fyrst og fremst haft áhrif á trúverðugleika Íslands á heimsmarkaði, þó svo að áhrifa hafi einnig gætt í sölunni.

„Ein helstu áhrifin varðandi markaðsstarf voru þau að þegar við komum inn á markaðinn aftur gátum við ekki byrjað á sama verði og við höfðum áður, heldur þurftum við að lækka verð. Hillurnar biðu ekki tómar eftir okkur, heldur þurftum við að hafa fyrir því að komast inn aftur. Það hefur gengið nokkuð vel í ferskum fiski, í frysta fisknum náðu menn frekar að halda sama dampi,“ segir Vilhjálmur

„Síðan varð þetta aðeins til að draga úr trúverðugleika okkar á markaðnum, við höfum haldið því mjög stíft fram að við værum mjög áreiðanlegur birgir, við gætum haldið uppi framboði allar vikur ársins og það væri ávallt hægt að treysta á fisk frá okkur. Þarna hurfum við frá markaðnum í tvo mánuði, þannig það er þegar farið að spyrjast fyrir um hvernig þetta verður eftir tvö ár, hvort menn eigi von á öðru eins. Við verðum varir við það að þetta hefur skaðað trúverðugleika okkar.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .