„Ferðamenn eru fljótir að afbóka ferðir þegar óvissuástand skapast,“ segir Helga Árnadóttir, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar, í samtali við Fréttablaðið . Þar segir hún yfirvofandi verkföll geta stuðlað að afbókunum ferða hingað til lands. Fyrri reynsla sýni að afbókanir hrannist inn hjá ferðaþjónustufyrirtækjum áður en til verkfalla kemur.

Samtökin hafa einnig áhyggjur af áhrifum á ferðaþjónustufyrirtæki gangi eftir launakröfur sem haldið er uppi, svo sem af Starfsgreinasambandinu. Helga segir að landið þyki frekar dýrt ferðaþjónustuland nú þegar og því myndi slík hækkun launa veikja verulega samkeppnishæfi þess.