Vikulangt verkfall sex stéttarfélaga iðnaðarmanna mun hefjast á miðnætti í kvöld ef ekki nást samningar í dag. Stéttarfélögin sem um ræðir eru Félag hársnyrtisveina, Grafía, Matvís, Rafiðnaðarsamband Íslands, Samiðn og Félag vélstjóra og málmtæknimanna.

Guðmundur Ragnarsson, formaður Félags vélstjóra og málmtæknimanna, segir í samtali við Morgunblaðið að staðan sé tvisýn. „Það eru þarna atriði sem við teljum að þurfi að fara betur yfir og svo eru önnur sem okkur finnst vanta. Við gerum lokaatlögu að þessu á morgun [í dag],“ segir hann.

Þorsteinn Víglundsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, segir við Morgunblaðið að stefnt sé að því að ljúka kjarasamningum í dag. Fulltrúar stéttarfélaganna munu hittast á fundi kl. 10 og munu í kjölfarið eiga fundi með samninganefnd Samtaka atvinnulífsins.