Þjóðskrá Íslands býst við að verkfallsaðgerðir aðildarfélaga BSRB leiði til þess að afgreiðsla vegabréfa muni að mestu liggja niðri á mánudaginn og þriðjudaginn komandi, og því ekki hægt að standa við auglýstan afhendingartíma vegabréfa og vottorða, sem og að opnunartími skrifstofunnar í Reykjavík verður skertur niður í tvo tíma, milli 11 og 13, meðan það verður alfarið lokað á Akureyri.

Hér að neðan má sjá tilkynningu um málið frá Þjóðskrá:

Vegna fyrirhugaðra verkfallsaðgerða aðildarfélaga BSRB vekur Þjóðskrá Íslands athygli á því að það mun koma til þjónustuskerðingar mánudaginn 9. mars og þriðjudaginn 10. mars ef af verkfalli verður. Sama á við um aðra daga sem verkfall hefur verið boðað.

Boðað verkfall mun hafa í för sér mikil áhrif umsóknarstaði vegabréfa. Embætti sýslumanna annast umsóknir um vegabréf hér á landi en þeir hafa boðað að almenn afgreiðsla erinda muni að mestu liggja niðri. Þetta hefur þau áhrif að afgreiðsla vegabréfa mun afmarkast af þeirri þjónustuskerðingu sem er hjá embættum sýslumanna.

Hjá Þjóðskrá Íslands verður vottorðaframleiðsla í lágmarki vegna verkfallsins. Þjóðskrá Íslands mun jafnframt ekki geta tryggt auglýstan afhendingartíma á vegabréfum og vottorðum sem er í dag 2 virkir dagar.

Opnunartími Þjóðskrár Íslands verður einnig skertur þessa daga en opið verður í afgreiðslu í Reykjavík frá kl: 11 til kl: 13 dagana sem verkfall stendur yfir en lokað verður í afgreiðslu á Akureyri. Símaþjónusta verður einungis opin á milli 9 og 10. Bendum við viðskiptavinum á sjálfsafgreiðslu mála á www.skra.is.