Þúsundir Grikkja hafa lagt niður störf og taka þátt í sólarhringslöngu verkfalli til að mótmæla fyrirhuguðum uppsögnum opinberra starfsmanna þar í landi.

Uppsagnirnar eru hluti af aðhaldsaðgerðum grísku stjórnarinnar sem hún þarf að koma í gegnum þingið til að uppfylla skilyrði björgunarpakka ESB og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.

Verkfallið hefur m.a. bitnað á heilbrigðisþjónustu og almenningssamgöngum í landinu. Undanfarna daga hafa mótmæli gegn aðgerðunum magnast enda verða aðhaldsaðgerðirnar óvinsælli með hverjum deginum.

Samkvæmt frétt BBC mun gríska þingið greiða atkvæði á morgun um tillögur stjórnarinnar sem m.a. fela í sér að um 4.000 opinberum starfsmönnum verður sagt upp í ár og öðrum 11.000 á næsta ári. Uppsagnirnar taka þó ekki gildi samstundis, heldur verða þeir á 75% launum í átta mánuði. Hafi þeir ekki verið fluttir í annað starf að þeim tíma liðnum missa þeir vinnuna.