Ljóst er að áhrif verkfalla og kostnaðarauki vegna kjarasamninga setti mark sitt á rekstrarniðurstöðu fyrsta ársfjórðungs Haga, að því er segir í tilkynningu til kauphallarinnar. Hagnaður á tímabilinu var 13,6% lægri en á sama tímabili í fyrra, en áður hafði verið tilkynnt að hagnaður fyrsta ársfjórðungs væri um 15% lægri en á síðasta ári.

Hagnaður Haga á fyrsta ársfjórðungi nam 811 milljónum króna, en var 939 milljónir á sama tímabili í fyrra. Velta dróst eilítið saman milli ára, fór úr 18.885 milljónum árið 2014 í 18.668 milljónir í ár. Fram kom á kynningu félagsins vegna ársuppgjörs að vörugjöld sem felld voru niður um síðustu áramót hefðu verið um 1,7%-1,8% af veltu félagsins á síðasta almanaksári. Samdrátt í sölu má því m.a. rekja til niðurfellingu vörugjalda. Framlegð lækkaði úr 4.574 milljónum í 4.485 milljónir og EBITDA lækkaði úr 1.405 milljónum króna í 1.212 milljónir. Eigið fé félagsins nam 15.575 milljónum króna í lok tímabilsins, en var 14.764 í upphafi þess. Eiginfjárhlutfall var 53,2% í lok fyrsta ársfjórðungs.

Í tilkynningunni segir jafnframt að kostnaðarmat SA á kjarasamningum, sem snýr m.a. að starfsfólki Haga, sem samþykktir voru nú í júní sé 7,3% árið 2015, 5,7% árið 2016, 3,6% árið 2017 og 2,3% árið 2018. Kostnaðarmat SA byggir á meðaltalshækkun, en þegar liggur fyrir að kostnaðarauki Haga er umfram framangreint meðaltal, að því er segir í tilkynningunni.