*

þriðjudagur, 7. júlí 2020
Innlent 31. janúar 2019 15:24

„Verkföll tilheyra fortíðinni“

Helgi Vilhjálmsson í Góu rekur átökin á vinnumarkaði til þess að atvinnurekendur hafi leyft 142% hækkun launatengdra gjalda.

Höskuldur Marselíusarson
Þjóðfélagsmálin hafa löngum brunnið á Helga Vilhjálmssyni og hefur hann stundum nýtt sér heilsíðuauglýsingar í blöðum til að koma málstað sínum á framfæri. Hann vill aukið framboð lóða og að dregið sé úr launatengdum gjöldum, þ.m.t. til lífeyrissjóðanna.
Haraldur Guðjónsson

Helgi Vilhjálmsson, framkvæmdastjóri sælgætisgerðarinnar Góa-Linda ehf. hefur löngum haft áhuga á þjóðfélagsmálum, hvort sem það eru húsnæðismálin eða því tengt, húsnæðis- og lífeyrissmál aldraðra. Í Viðskiptablaðinu sem kom út í dag ræðir Helgi ítarlega um sögu rekstursins, hvernig hugmyndin að opnun KFC og fleiri staða kom til og um hugmyndir sínar um lausn á húsnæðisvandanum, bæði ungs fólks og eldra, kjaradeilunum og fyrirferðarmikla stöðu lífeyrissjóðanna í íslensku efnahagslífi.

Hefur honum þótt rekstur lífeyrissjóðanna ógagnsær, fólk greiði í sameignarsjóðina alla ævina, en óljóst er hvað hver og einn fái úr þeim og hvernig fjármununum í þeim sé skipt. Eins og til dæmis hefur komið fram í auglýsingum sem Helgi hefur birt í eigin nafni, þykir honum eðlilegt að lífeyrissjóðirnir fjárfesti í húsnæði fyrir eldri borgara, enda sé það í sjálfu sér góð viðskiptahugmynd með tryggri ávöxtun af leigutekjunum. 

Þannig séu þeir sem eigi sjóðina, að njóta ávaxtanna af þeim á tvennan hátt, en þess í stað séu lífeyrissjóðirnir í dag ekki að skila nægilegri ávöxtun til að réttlæta að fjárfesta ekki í steypu. Það hafi alltaf skilað ávöxtun, auk þess sem áhættan væri minni. „Það eldast allir og kannski verður kellingin, eða kallinn, einn eftir í stóru húsi. En við gætum farið úr hverfinu, sem er með skóla og allri þjónustu svo unga fólkið komist að, ef lífeyrissjóðirnir myndu byggja litlar íbúðir fyrir aldraða,“ segir Helgi.

Launþegar fá einungis helming af heildarlaununum

Nýjasta útspil Helga í þjóðmálaumræðunni var heilsíðuauglýsing sem hann birti á dögunum, með tölum upp úr BS ritgerð Silju Daggar Ósvaldsdóttur í viðskiptafræði við HÍ, sem sett hefur verið upp á heimasíðunni Launasamsetning.is. Þar var bent á að starfsmaður með 500 þúsund króna mánaðarlaun, fengi einungis 50,3% af heildarlaunakostnaði atvinnurekandans í umslagið.  

Af tæplega 677 þúsund krónum, fái starfsmaðurinn einungis út 340 þúsund króna mánaðarlaun, því launatengd gjöld hafi hækkað um 142% í krónum talið frá árinu 2008. Þannig fari 17,5% af heildarupphæðinni í tekjuskatt, 8,50% í mótframlag í sameignarhluta lífeyrissjóða, 7,51% í orlof, 5,74% í tryggingagjald, 2,95% í séreignarsjóð, 2,95% í lífeyrissjóðinn, 1,69% í orlofs- og desemberuppbættur, 1,48% í mótframlag í séreign lífeyrissjóðs, 0,74% í sjúkrasjóð, 0,52% í félagsgjald auk smærri greiðslna í orlofsheimilasjóð, endurhæfingarsjóð, endurmenntunarsjóð og markaðsgjald sem renni til Íslandsstofu. 

4.000 milljarðar teknir úr launaumslagi fólks

„Kjaramálin eru mikið í umræðunni núna, og fyrst verið er að hóta verkföllum til að fá kauphækkanir, þá verð ég að segja að verkföll tilheyra fortíðinni. Við erum með allt of gott fólk sem á að kunna þetta allt saman, en vandamálið er að það er of mikið hirt úr umslaginu eins og ég birti á dögunum og við þurfum að fara að skila þessu aftur. Þessir höfðingjar í lífeyrissjóðunum segjast sjálfir eiga um 4.000 milljarða, en það eru peningar sem þeir hafa tekið úr umslaginu hjá fólkinu. 

Ég er ekkert á móti lífeyrissjóðunum, en þeir eru bara orðnir allt of stórir, þegar þeir fá inn nálega milljarð á dag, það er rosalegt, enda samsvarandi 40 íbúðum. Þessir menn eru komnir með allt of mikið inn á bankabókina, meðan fólkið er að berjast í bökkum,“ segir Helgi sem gefur lítið fyrir þau rök fyrir auknum greiðslum í sjóðina að þjóðin sé að eldast, örorka að aukast og svo framvegis. 

Segir sjóðina hafa tífaldast

„Þeir sögðu þetta við mig fyrir tuttugu árum þegar ég fór að gagnrýna þetta, en þá áttu þessir höfðingjar bara 400 milljarða. Það er gott að þjóðin eldist en sjóðirnir eru að stækka miklu hraðar, það er það skrýtna við þetta, á sama tíma og fyrirtækin eru í vandræðum með að fá fólk í vinnu. Sem atvinnurekandi hef ég svo sem ekki rekist á það, en fyrst verið er að biðja um 40 þúsund króna kauphækkun á mánuði næstu þrjú árin, myndi ég segja að við ættum að skipta þessu jafnt. 

Við atvinnurekendur borgum helminginn og hinir saman tuttugu þúsund krónurnar. Það er fimm þúsund á ríkið, fimm þúsund á lífeyrissjóðina, fimm þúsund á Ragnar Þór og hina í verkalýðsfélögunum og fimm þúsund á tryggingagjaldið. Atvinnurekendur hafa verið allt of fljótir að samþykkja ýmislegt sem tekið hefur verið úr umslaginu, það voru mistök að hækka framlög atvinnurekenda til lífeyrissjóða um 40%, úr 8% í 11,5%, það er eins og menn hafi ekkert kunnað að reikna allt í einu. Í stað þess að fara í verkföll sem allir tapa á, þá ættum við bara að skila þessu aftur.“ 

Sammála Ragnari Þór í VR

Fyrst minnst er á Ragnar Þór Ingólfsson, formann VR, sem verið hefur í fremstu röð þeirra stéttarfélaga sem gengið hafa hvað harðast fram í kjarasamningalotunni sem nú stendur yfir er Helgi spurður hvort þeir séu sammála um það að lífeyrissjóðirnir séu of margir. 

„Ég er svolítið sammála honum, en þetta er ungur maður sem gengið hefur í gegnum og veit ýmislegt. En hann þarf kannski aðeins að hægja á hjólunum. Það eru allt of margir lífeyrissjóðir, þeir eiga helminginn í flestöllum fyrirtækjunum hérna og kostnaðurinn við þá er of mikill. Á sama tíma er einn maður í Bandaríkjunum sem rekur einn sjóð sem er helmingi stærri en þeir íslensku,“ segir Helgi sem telur ekki mikla hættu á því að það skorti samkeppni ef lífeyrissjóðunum fækki. 

„Það er mikill munur á því að vera með 40 lífeyrissjóði eða einn, það mætti kannski taka núllið af og þá væru þeir fjórir. Hins vegar hef ég ekki orðið var við það að þessir lífeyrissjóðir séu neitt sveittir í því að lána peningana sína. Peningar eru ekkert annað en söluvara, ég þarf að hafa fyrir því að selja mína vöru, og þeir eiga að reyna að selja sína vöru. 

Ég hef til dæmis nefnt það að þeir ættu að bjóða fólki sem vill kaupa sér íbúðir, kannski búið að gifta sig, og komin með tvö börn, skyndilán til að kaupa sér íbúðir. Þá mætti vera búið að grennslast fyrir um hvar hann hefur unnið, og svo framvegis. Það eiga að vera til íbúðir og lóðir fyrir alla, og lóðir mega ekki vera svo dýrar að fólk sé bara sveitt í því að reyna að koma sér upp þaki yfir höfuðið.“

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta gerst áskrifendur hér.