*

mánudagur, 19. ágúst 2019
Innlent 10. mars 2019 14:41

Verkföllin beinist gegn saklausu fólki

Formaður SI telur að vilji hafi verið til að fara í átakafarveg með kjaraviðræðurnar. „Það hlakkar enginn til verkfallsaðgerða“.

Ritstjórn
Guðrún Hafsteinsdóttir er formaður Samtaka iðnaðarins
Haraldur Guðjónsson

Guðrún Hafsteinsdóttir formaður Samtaka iðnaðarins segir verkfallið á föstudag hafa beinst gegn saklausu fólki, það er ferðamanna ætluðu að eiga hér góðar stundir en lenda í því að komast ekki á hótelið sitt, að því er RÚV hefur eftir henni úr Silfrinu í morgun.

„[J]á verkfallsaðgerðunum er fyrst og fremst beint að ferðafólki sem ætlar að sækja landið heim og upplifun þeirra verður með allt öðrum hætti en efni stóðu til,“ segir Guðrún sem hefur uppi efasemdir um að verkalýðsforystan hafi í raun viljað semja.

„Ég held að einhver hluti verkalýðshreyfingarinnar hafi viljað fara inn í þennan átakafarveg. Það er alltaf gríðarlega mikið tjón. Verkföll eru tjón. Þau eru tjón fyrir atvinnurekendur, þau eru tjón fyrir fyrirtækin í landinu og þau eru tjón fyrir fólkið sem fer í verkföll og leggur niður störf.“

Eins og fram hefur komið í fréttum sagðist Sólveig Anna Jónsdóttir formaður Eflingar, sem lagði niður störf í gær, hlakka til verkfallsins sem hún kallaði kvennaverkfall en það var haldið á alþjóðlegum baráttudegi kvenna sem á rætur sínar að rekja til Sovétríkjanna en félagið boðaði einnig til mótmælagöngu og útifundar.

„Ég held að það muni enginn í Húsi atvinnulífsins eða atvinnurekendur tala um föstudaginn sem gleðidag og það hlakkar enginn til verkfallsaðgerða. Fyrir okkur er það alltaf mjög sorglegt þegar deila fer í þennan farveg og við höfum lagt á það mikla áherslu að fólk setjist niður og ræði saman,“ sagði Guðrún hins vegar.

„Ég vil líka ítreka það að þessar verkfallsaðgerðir, þær beindust fyrst og fremst að saklausu fólki sem eru ferðamenn sem ákváðu fyrir löngum tíma að sækja Ísland heim og ætluðu að eiga hér góðar stundir og lenda síðan í því að komast ekki inn á hótelið sitt.“