Verkföll félagsmanna í bæði Eflingu og VR, sem áttu að standa í 48 klukkustundir frá og með miðnætti nú, hefur verið aflýst.

Var tilkynnt um þetta í kjölfar þess að fundi forystumanna verkalýðsfélaganna með Halldóri Benjamín Þorbergssyni framkvæmdastjóra SA var slitið.

„Við höfum sammælst um það að hér sé kominn umræðugrundvöllur sem geti lokið með gerð kjarasamnings. Við munum funda næstu daga til að ganga frá því ef mögulegt er,“ sagði Halldór Benjamín að því er Vísir greinir frá.

Segir Ragnar Þór Ingólfsson formaður VR að nú sé kominn umræðugrundvöllur sem hægt sé að vinna á. „Verkföllunum verður aflýst en þau standa enn þá í næstu viku. Við munum leggja okkur fram um að reyna að klára þetta um helgina,“ segir Ragnar Þór.

Starfsmenn í „röngu stéttarfélagi“

Efling, þar sem Sólveig Anna Jónsdóttir er formaður, sendi frá sér fréttatilkynningu fyrr í dag um að allir starfsmenn í þeim greinum sem áttu að fara í verkfall, á félagssvæði Eflingar, ættu að fara í verkfall, líka þeir sem væru í „röngu stéttarfélagi“.

Samtök atvinnulífsins höfðu hins vegar áréttað vegna deilna um þessi mál í aðdraganda verkfalls félagsins 22. mars síðastliðinn að Félagsdómur hafi staðfest að verkföll nái einungis til starfsmanna í félögunum sem boðað hafa verkföll. Segja samtökin það stjórnarskrárvarin rétt að standa utan verkalýðsfélaga og aðrir starfsmenn eigi að sinna störfum sínum eins og ekkert hafi í skorist.

Félagssvæðið teygir sig frá Hvalfirði að Ölfusá

Félagssvæði Eflingar nær yfir lögsagnarumdæmi Reykjavíkur, Kópavogs, Seltjarnarness, Mosfellsbæjar og Kjósarsýslu að Botnsá, Grímsnes og Grafningshrepp, Hveragerðisbæ og Sveitarfélagið Ölfus. Starfssvið félagsmanna sem starfa á veitinga- og gististöðum og við iðnað nær auk þess yfir Hafnarfjörð, Garðabæ og Bessastaðahrepp.

Á miðvikudag biðluðu Samtök atvinnulífsins til verkalýðsforingja að fresta verkföllum í ljósi viðkvæmrar stöðu efnahagslífsins, ekki síst vegna óvissunnar um stöðu Wow air og því ferðaþjónustunnar allrar, en ekki var ljáð máls á því þá að verða við þeirri beiðni.