Svana Helen Björnsdóttir rafmagnsverkfræðingur er nýr formaður stjórnar Samtaka iðnaðarins. Hún var kjörin formaður á aðalfundi samtakanna í mars síðastliðnum, fyrst kvenna. Svana tók við af Helga Magnússyni sem hafði gegnt stöðunni í sex ár. Í framboði til formanns SI auk Svönu var Haraldur Ólason, framkvæmdastjóri Furu. Svana fékk 58,6% greiddra atkvæða. Svana  fæddist í Skaftahlíð 5 í Reykjavík en ólst meðal annars upp í Danmörku þar sem foreldrar hennar voru við nám. Eftir að foreldrar hennar fluttu heim á ný bjó hún meðal annarsí Safamýri og Breiðholti en býr nú á Seltjarnarnesi. Þar býr hún ásamt eiginmanni sínum og þremur sonum þeirra sem eru á aldrinum 15 til 18 ára. Svana og eiginmaður hennar lærðu bæði rafmagnsverkfræði í Darmstadt í Þýskalandi. Eftir að hafa starfað í ár í sitt hvorri þýsku borginni og búið í þeirri þriðju ákváðu þau að halda heim á leið 1987.

Fjöldi viðurkenninga

Svana er fyrsta konan til að verða kjörin formaður Samtaka iðnaðarins og hefur hlotið fjölda viðurkenninga bæði hérlendis og erlendis fyrir störf sín. Hún var m.a. útnefnd fyrirmyndar kvenfrumkvöðull af Enterprise Europe Network innan ESB. Einnig hlaut hún viðurkenningu sem „Female Entrepreneurship Ambassador“ afhent af Viktoríu krónprinsessu Svíþjóðar í Stokkhólmi í október 2009. Hún var einnig sæmd gullmerki Verkfræðingafélags Íslands á árshátíð félagsins í Reykjavík í febrúar 2009 og Aldarviðurkenningu VFÍ á hundrað ára afmæli þess í apríl sl.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér að ofan.