Iðnaðarfyrirtæki í Bretlandi hafa í auknum mæli tekið upp á því að ráða til sín þýska og indverska verkfræðinga og sérfræðinga vegna skorts á innlendum vinnumarkaði. Þetta kemur fram í könnun sem Verkfræði- og tæknistofnun Bretlands framkvæmdi á dögunum.

Könnunin leiðir í ljós að 40% af breskum iðnaðarfyrirtækjum búast ekki við að finna nægilega marga verkfræðinga eða sérmenntaða til að mæta ráðningarþörfum fyrirtækjanna á næstu fjórum árum. Vaxandi erfiðleikar tengdir því að finna fólk með þá menntun og hæfileika sem þörf er á til að hefja störf eða gerast lærlingar hjá iðnaðarfyrirtækjunum hafa gert það að verkjum að atvinnurekendur horfa nú í auknum mæli út fyrir landsteinana þegar kemur að ráðningum.

Til að mynda þurfti breska raforku- og gasfyrirtækið Eon að leita að sérfræðingum til Þýsklands á síðasta ári til að uppfylla ráðningarþarfir og WS Atkins, sem sérhæfir sig í hönnun sem tengist verkfræði, hefur sett upp skrifstofu í Indlandi sem markvisst leitar að verkfræðingum fyrir starfsemina í Bretlandi.

Könnunin leiðir í ljós að stjórnendur iðnaðarfyrirtækjanna telja tvær ástæður fyrir þessum vanda. Í fyrsta lagi hafa breskir námsmenn nú minni áhuga á verkfræði en áður. Í öðru lagi telja stjórnendurnir að nú þegar fjármálafyrirtækin sækjast í auknum mæli eftir starfskröftum verkfræðinga hafi samkeppnin um starfskraftanna harðnað. Í flestum tilvikum bjóða fjármálafyrirtækin verkfræðingunum kjör sem erfitt er að keppa við.

Iðnaðar- og verkfræðifyrirtæki hafa í kjölfarið gripið til aðgerða sem er ætlað er að hressa upp á ímynd greinarinnar í þeirri von að áhugi fólks á starfsemi iðnaðarfyrirtækja vakni. Háskólar hafa einnig hafið kynningarátak til að freista þess að laða að fleiri nemendur í verkfræði og skyldar greinar.Þrátt fyrir að nemendum sem útskrifast úr verkfræði hafi fjölgað undanfarin ár vantar enn mikið upp á til að mæta þörfum atvinnulífsins.