Jim Ratcliffe hefur boðað fjögurra milljarða króna fjárfestingu í uppbyggingu veiðihúsa við þrjár veiðiár sem eru í umsjá verkefnis hans, Six Rivers Project. Nýju veiðihúsunum er ætlað að laða að veiðimenn hvaðanæva að sem láta sig viðgang og verndun Norður-Atlantshafslaxins varða. Gísli Ásgeirsson, framkvæmdastjóri Six Rivers Project, segir að nýju húsin komi til með að veita veiðimönnum betri aðstöðu.

„Aðstaðan er orðin mikilvægari þáttur stangaveiðinnar en áður fyrr. Fyrir einhverjum áratugum sætti fólk sig við það að vera í tjöldum, en þannig er það ekki lengur. Fólk vill góða aðstöðu, góð herbergi með sérbaði, sturtu og svo framvegis. Uppbyggingin er liður í því að búa til betri aðstöðu og að sama skapi draga að meiri eftirspurn."

Aðspurður hvort gæði aðstöðunnar verði eitthvað í líkingu við þá sem er hjá Deplum í Fljótum, sem stíla inn á efnameiri ferðamenn, segir hann það ekki fjarri lagi, aðstaðan verði fyrsta flokks. „Ég vonast líka til þess að við munum geta nýtt húsin undir fjölbreytta útivist og afþreyingu utan hefðbundins veiðitíma, hvort sem það eru göngur, gönguskíði, fjallaskíði eða annað.

Hann segir verkefnið ekki einblína á erlenda markaðinn, þótt hann sé mikilvægur. „Erlendi markaðurinn er auðvitað gríðarlega stór og hefur verið það á Íslandi undanfarin ár. Bretar og Bandaríkjamenn hafa verið lang fjölmennasti hópurinn í stangaveiði og með ríkustu veiðihefðirnar, og við erum að horfa í þann hóp. Á sama tíma erum við með innlenda viðskiptavini og við ætlum að sinna þeim hóp að sama skapi."

Óhætt er að segja að nokkurrar tortryggni hafi gætt í garð Jim Ratcliffe og kaup hans á jörðum með eftirsóttum veiðiám. Yfirlýst markmið Ratcliffe's er að vernda stofn Norður-Atlantshafslaxins. Gísli segir áform hans í þeim efnum einlæg.

„Ég þekki Jim og hef verið með honum í þessu í mörg ár. Ég veit að hans áform eru einlæg í því að snúa við þróuninni hvað varðar laxinn í Norður-Atlantshafi. Sú þróun er ekki góð og hún er jafnvel það slæm að við gætum séð laxinn nánast hverfa á okkar líftíma. Þessi mál hafa verið umdeild og það verður að virða þær skoðanir sem fólk hefur á þessum málum. Við verðum bara að eyða þeirri tortryggni sem er til staðar með því að láta verkin tala."