Verkís verkfræðistofa hefur undanfarin fimm ár sinnt verkfræðiráðgjöf í Noregi.   Verkefnin fást í gegnum opin útboð eða beina verkefnaöflun og hafa fjölmargir rammasamningar verið  gerðir við opinbera aðila og einkaaðila.

Í tilkynningu segir að flest verkefnin séu  tengd samgöngu- og veituhönnun en undanfarið hafi  byggingartengdum verkefnum fjölgað.   Verkefnin snerti öll svið verkfræðinnar og sé mikil eftirspurn eftir íslenskri þekkingu þar ytra. Verkís hafi þegar opnað útibú í Osló í Noregi til þess að sinna aukinni starfsemi  þar í landi.

„Nýlega varð Verkís, með Arkís arkitekta sem undirverktaka, hlutskarpast í útboði um hönnun og framkvæmdareftirlit sundhallar í sveitarfélaginu Asker í Noregi.  Um er að ræða spennandi og eftirsótt verkefni en mörg stór ráðgjafarfyrirtæki voru þátttakendur í útboðinu,“ segir í tilkynningunni.

Sundhöllin, sem ber heitið  Holmen Svømmehallen, verður staðsett á einum eftirsóttasta stað í Asker. Segir í tilkynningunni frá Verkís að sundhöllin muni rísa og tengjast við eina fallegustu baðströnd sveitarfélagsins þar sem fjöldi gesta leggur leið sína á ári hverju.  Sundhöllin verði 4.000 m² að stærð á tveimur hæðum; sundlaugarsvæði, búningsherbergi ofl. á efri hæð og tæknirými í kjallara.