Ákveðið hefur verið að sameina Verkís og Almennu verkfræðistofuna undir nafni Verkís. Samningur þessa efnis var undirritaður í dag.

Fram kemur í tilkynningu frá fyrirtækjunum að samruninn veiti  tækifæri til frekari sóknar á erlenda markaði.

Bæði Verkís og Almenna eiga sér langa sögu á verkfræðimarkaðnum, Verkís var stofnað árið 2932 og er elsta verkfræðistofa landsins. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Verkís sameinast öðrum stofum. Síðast gerðist það fyrir fjórum árum þegar fimm fyrirtæki fóru undir einn hatt og er þetta því sjötti samruninn.

Almenna verkfræðistofan var stofnuð fyrir 41 ári síðan.

Fram kemur í tilkynningunni að Verkís hafi þegar talsverða reynslu af verkefnum víða um heim, mest á sviði orkumála. Stefnt er að því að útvíkka þjónustuframboð erlendis með því að bjóða upp á almenna verkfræðiþjónustu á Norðurlöndum en Almenna hefur sömuleiðis  unnið að mörgum verkefnum í Noregi undanfarin misseri.

Sameiningin verður tilkynnt Samkeppniseftirlitinu og kemur ekki til framkvæmdar fyrr en málsmeðferð er lokið. Ráðgjafar sameiningarferlisins eru lögfræðistofurnar Logos og Deloitte.