Verkfræðistofan Verkís hefur undirritað samning við Om Energy Generation um hönnun og ráðgjöf við 7 MW vatnsaflsvirkjun í Himachal Pradesh á Indlandi. Í tilkynningu frá Verkís segir að samningurinn eigi sér nokkurn aðdraganda, og fulltrúar Verkís hafi meðal annars ferðast til Indlands til að kynna sér virkjunaraðstæður. Í samtali við Viðskiptablaðið segir Sveinn Ingi Ólafsson, framkvæmdarstjóri Verkís, að samningurinn hljóði upp á 20-30 milljónir króna, en framkvæmdartími virkjunarinnar er 2 ár. Framkvæmdir munu hefjast í sumar. Engir starfsmenn Verkís munu fara til langdvalar, heldur ferðast til skemmri tíma í senn. Verkið verður unnið í samstarfi við indverska verkfræðiráðgjafa.